4. umferð íslandsmótsins í snocrossi var haldin í sól og blíðu á svæði Bílaklúbbs Akureyrar 9.apríl. Helstu verktakar Akureyrar brettu upp ermarnar og keyrðu hundruði tonna af snjó uppá svæði í vikunni sem leið, enda var farið að glitta í fagurgrænt gras á keppnisstað í byrjun vikunnar og má því með sanni segja að án þeirra hefði ekki verið hægt að halda þetta mót, og hvað þá með þessum líka glæsibrag eins og raun bar vitni.
Ákveðið var fyrir þessa umferð að gera breytingu til að mæta miklum fjölda keppenda í Sport flokki og var honum því skipt upp í 2 flokka þar sem tímatökur ákvörðuðu hvort keppendur kepptu í Sport Lite eða Sport. Þetta bauð uppá mikla skemmtun og spennu þar sem ný keppni myndaðist hjá óreyndari ökumönnum í Sport- lite.
Í unglingaflokk var sem áður mikil barátta og ótrúlega flottur akstur hjá strákunum sem eru að verða betri og betri með hverri viku. Alex þór Einarsson hélt uppteknum hætti og keyrði óaðfinnanlega og kláraði daginn í 1.sæti.
Unglingaflokkur
1. Alex Þór Einarsson
2. Frímann Geir Ingólfsson
3. Sigurður Bjarnason
Í Sport lite var það pabbi hans Alex Þórs, aldursforsetinn Einar Geirsson, forsprakki GEEE Machine Racing sem sigraði daginn og vann öll 3 hítin með fantaflottum akstri. Það var hörku keppni allan daginn og greinilega gott fyrir sportið að þessir keppendur fái sinn eigin flokk.
Sport lite
1. Einar Geirsson
2. Kristófer Logi Halldórsson
3. Viðar Freyr Hafþórsson
Í Sport flokkinn voru allir mættir til að vinna og var æsingurinn eftir því. Það var mikill hraði og læti og greinilega allt lagt í sölurnar. En eftir daginn var það Kolbeinn Þór Finnsson sem sigraði eftir mikið race þar sem Kolbeinn, Alex og Birgir skiptust á að vinna umferðir.
Sportflokkur
1. Kolbeinn Þór Finnsson
2. Alex Þór Einarsson
3. Birgir Ingvason
Pro lite flokkur var æsispennandi að venju en þar er hörð barátta um íslandsmeistaratitilinn. Bergsveinn Ingvar Friðbjörnsson náði að tryggja sér fyrsta sætið eftir daginn eftir mikla baráttu um efstu sætin en það má sannarlega segja að Pro lite flokkurinn sé fullur af keppendum sem munu taka skrefið upp í Pro open strax á næsta tímabili.
Pro lite
1. Bergsveinn Ingvar Friðbjörnsson
2. Víðir Tristan Víðisson
3. Guðbjartur Magnússon
Pro open fór frekar óvænt af stað en þar lendir Bjarki Sigurðsson í svakalegu krassi strax í fyrsta heati sem tekur hann hér um bil úr leik. Einar Sigurðsson litli bróðir hans tók strax við keflinu og keyrði eins og herforingi með Ívar á hælunum fyrstu 2 heatin og sigraði þau, í 3 og síðasta heati virðist sem keppnisskapið hafi tekið yfir hjá Bjarka sem hafði tekið því rólega eftir byltuna í 1 heati, slasaður á hönd, því hann setti allt af stað og sigraði síðasta heatið á undan Einari og svo Ívari.
Pro Open
1. Einar Sigurðsson
2. Bjarki Sigurðsson
3. Ívar Már Halldórsson
Heildarstaða eftir 4 umferðir má finna með því að smella á hnappinn hér að neðan
Næsta og síðasta umferðin fer svo fram á Egilsstöðum þann 23.Apríl næstkomandi.
Comments